Hvað skemmtiferðaskipin varðar hefur sumarið í ár um flest verið mjög farsælt á Íslandi. Þrátt fyrir talsverða aukningu í skipakomum hafa engir áberandi hnökrar orðið í þjónustunni við skipin og innviðir þjóðarinnar, sem þola álag vel, hafa verið vel nýttir í allt sumar. Niðurstaðan er áhugaverð Íslandsheimsókn fyrir allan þann fjölda gesta sem kynnist Íslandi fyrst með komu sinni á skemmtiferðaskipi. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir framtíð íslenskrar ferðaþjónustu þar sem rannsóknir sýna að ferðamenn sem koma með skemmtiferðaskipum koma oft aftur til lengri dvalar í landi.

Einskiptisvöxtur í ár
Í fjölmiðlum hafa heyrst nokkrar áhyggjur af því að sá umtalsverði vöxtur sem varð í sumar muni endurtaka sig. Mikilvægt er að halda því á lofti í umræðu um skemmtiferðaskip að ekki er búist við frekari vexti á næsta ári. Bókunartölur gefa ekki frekari vöxt til kynna. Á hitt ber hins vegar að líta að hlutfall skiptifarþega er að aukast sem eru mjög góð tíðindi þar sem farþegaskipti auka tekjur umtalsvert ásamt því að festa Ísland enn frekar í sessi sem mikilvægan áfangastað skemmtiferðaskipa. Sú reynsla sem hefur fengist af skipakomum í sumar sýnir að núverandi fjöldi skipa gengur vel upp með tilliti til álags á innviði.

Skýrsla um hagræn áhrif í vinnslu hjá Ferðamálastofu
Á Ferðamálastofu er verið að vinna skýrslu um hagræn áhrif af komu skemmtiferðaskipa Skýrslan er byggð á könnun sem Rannsóknarmiðstöð ferðamála er að framkvæma í sumar að frumkvæði Faxaflóahafna og kostuð af þeim. Við byggjum vonir við að hún kasti jákvæðu ljósi á þennan hluta ferðaþjónustunnar en þar mun m.a. koma fram að sá mikli vöxtur sem við sáum í sumar er einskiptisvöxtur. Vöxturinn í ár stafar af líkindum m.a. af því að Eystrasaltið er ekki fýsilegur áfangastaður eins og áður vegna stríðsins í Úkraínu. Við höfum einnig vísbendingar um að þessi hluti ferðamanna sé mun dýrmætari en áður hefur verið haldið fram, sér í lagi skiptifarþegar í Faxaflóahöfnum, og að rannsóknin muni leiða það í ljós. Til að mynda höfum við þegar vitneskju um að farþegar af skemmtiferðaskipum séu mikilvægir sölu á lúxusvarningi. Við eigum von á niðurstöðum í september og munum deila þeim með ykkur þegar þær liggja fyrir.

Stanslaus vinna í að jafna álag
Faxaflóahafnir eru að þróa bókunarkerfið DOKK með það fyrir augum að rýna betur í álagsdreifingu á hafnir niður á hvern dag og þar með væri hægt að vinna út frá æskilegum fjölda skipa og hámarksfjölda farþega sérhverrar hafnar. Ýmislegt má enn bæta í okkar geira og höfum við því átt í virku samtali við CLIA (Cruise Lines International Association) í allt sumar til að koma ábendingum þá leiðina til útgerðanna um eitt og annað sem betur má fara í starfsemi þeirra á Íslandi. Sem dæmi má nefna að við komum á framfæri óskum um að skip sýndu sérstaka tillitssemi og notuðu ekki kallkerfi skipanna úti við með truflandi hætti fyrir íbúa þeirra staða sem heimsóttir eru. Við höfum haft svipaðan hátt á gagnvart CLIA í sumar og upplýst áhyggjur af ágangi á sumum áfangastöðum, útblæstri og þyrluflugi, svo eitthvað sé nefnt. Öllu hefur verið miðlað til CLIA með úrbætur og frekara samtal í huga við hagaðila á Íslandi næsta sumar þannig að góð sátt náist um þennan mikilvæga hóp ferðamanna til lengri tíma.

Samtal við hagaðila fyrirhugað í allan vetur
Cruise Iceland hyggst funda með hagaðilum í haust og vetur til að heyra beint frá þeim hvað má betur fara á hverjum stað. Í sumar höfum við séð að upplifun íbúa á flestum stöðum er jákvæð af komu skemmtiferðaskipa og höfum við í fyrsta skiptið séð íbúa taka upp hanskann fyrir farþega skemmtiferðaskipa í athugasemdum við fréttir fjölmiðla á samfélagsmiðlum svo sem á Baklandi ferðaþjónustunnar á Facebook. Flestum er líklega ljóst að gagnrýni á ferðamenn er sjaldnast sanngjörn, sérstaklega ef hún á að snúa eingöngu að þeim sem koma með skemmtiferðaskipum sem þó telja líklega í mesta lagi um 20% heildarinnar. Í þessu sambandi skiptir líka miklu máli að Íslendingar sjálfir eru miklir ferðamenn og vilja að sjálfsögðu að vel sé tekið á móti þeim sjálfum þegar þeir leggja land undir fót, hvort sem farið er á áfangastaðinn með flugi eða skipi.

Á meðal málefna sem þarf að ræða við hagaðila er hvernig tekið er á móti farþegum á hverjum stað. Víða skortir upplýsingaskilti um þjónustu og alltof algengt er að verslanir og önnur þjónusta sé lokuð þegar ferðamenn ganga frá borði snemma morguns og um borð síðla kvölds. Á milli áfangastaða á Íslandi getur verið gríðarlegur munur á keyptri þjónustu og sýnist okkur sá munur fyrst og fremst stafa af mismunandi framboði á hverjum stað af vörum og þjónustu.

Innviðauppbygging framundan
Á komandi árum er gríðarleg innviðauppbygging fyrirhuguð sem byggð er á tekjum af skemmtiferðaskipum. Allt að 800 milljónir eru á framkvæmdaáætlun fyrir Akureyri og í Reykjavík á að fara að byggja farþegamiðstöð fyrir farþegaskipti sem skiptir alla ferðaþjónustuna miklu máli þar sem þeir ferðamenn nýta flest alla þjónustuþætti sem eru í boði á landinu. Sú fjárfesting er líkleg til að kosta allt að þrjá milljarða.

Nokkuð um rangar staðhæfingar um skemmtiferðaskip
Eitthvað hefur borið á því í sumar að fólk sem þekkir vel til í ferðaþjónustunni hafi borið til baka rangar staðhæfingar um skemmtiferðaskip og farþega þeirra. Nýlegt dæmi er viðtal í Reykjavík síðdegis þar sem Steinþór Ólafsson eigandi Steinferða, sem þjónustar skemmtiferðaskip, ræddi við þáttastjórnendur um neikvæða umræðu um komu skipanna[1]. Í viðtalinu leiðrétti Steinþór ranghugmyndir um eyðslu ferðamanna þar sem hann benti á að það skorti einfaldlega verslanir fyrir þessa viðskiptavini en þar sem ferðamenn kæmust í þjónustu og vörur versluðu þeir vel.

Þá er rangt að ferðamenn borði eingöngu um borð í skemmtiferðaskipunum og taki með sér nesti eins og nokkuð oft heyrist sagt. Fyrir það fyrsta benti Steinþór réttilega á að matur er bókaður fyrir ferðamenn í skipulögðum ferðum út um allt land með mjög löngum fyrirvara. Að auki kaupa skemmtiferðaskipin mikið af matvælum á hverjum áfangastað til að bjóða ferskvörur um borð, t.d. kaupa þau mikið af íslenskum fisk. Allar þessar tekjur væru tapaðar ef ekki væri fyrir skemmtiferðaskipin.

Þá er enn ástæða til að minnast á að mikið var gert úr fréttum frá samtökunum Transport & Environment þar sem það var gefið í skyn að Ísland væri einn þeirra áfangastaða sem væri hvað mengaðastur vegna skemmtiferðaskipa. Í skýrslu Transport & Environment var hins vegar eingöngu verið að tala um brennisteinsmengun frá eldsneyti sem skemmtiferðaskip nota til að sigla á milli staða, en brenna ekki í höfnum. Svo virðist sem þessi samanburður sé notaður þar sem hann er óhagstæður fyrir skipin en það stafar auðvitað af því að ökutæki sem eðli máls samkvæmt eru notuð í landi þurfa að lúta mun strangari kröfum um brennisteinsinnihald eldsneytis. Nánar má lesa um þetta hér á vef Cruise Iceland í eldri frétt.

Í stöku fjölmiðlum hefur verið vísað í erlendar fréttir þar sem það er staðhæft að skemmtiferðaskip losi skolp beint í sjóinn. Það stenst augljóslega ekki neina skoðun. Engin skemmtiferðaskip losa skólp í sjó, hvorki í föstu formi né fljótandi. Þá er enn fremur engin losun á hreinsuðu skólpi (sem er alveg tært vatn og geislað til að drepa örverur) innan 12 sjómílna frá höfn. Tuttugu og sex prósent af skemmtiferðaskipum hafa grunn hreinsikerfi á skólpi þar sem efni eru losuð á landi til viðurkenndra aðila (á dæmigert aðeins við mjög lítil skip – ekki stóru skemmtiferðaskipin sem eru með háþróuð hreinsikerfi).

Þá hefur því ranglega verið haldið fram í alþjóðlegum fjölmiðlum að skemmtiferðaskip hafi verið bönnuð í Amsterdam. Þetta er líka rangt eins og kemur fram í yfirlýsingu hafnarstjórnar þar: „We are aware of the media reports about the future of cruise in Amsterdam. As the port has publicly stated, cruise ships have not been banned from Amsterdam,” segir í tilkynningu. „Furthermore, the port and Passenger Terminal Amsterdam have already pledged to undertake investments worth millions of Euros in port infrastructure and shoreside electricity for the long-term.”[2]

Svipaðar rangfærslur sáust í fjölmiðlum erlendis og hérlendis um Feneyjar þar sem því var haldið fram að skemmtiferðaskipum hefði verið bannað að koma þar inn í lónið þegar hið rétta er að CLIA hafði um margra ára skeið óskað eftir nýjum viðlegustað til að vernda ásýnd borgarinnar og lónið sjálft. Það fékkst loks í gegn og ber auðvitað að fagna þeirri uppbyggingu sem er framundan á öðrum stað í Feneyjum.

Innleiðing Environmental Port Index
Í Reykjavík er byrjað að rukka skip eftir EPI kerfinu þar sem umhverfisvænni skip fá ívilnanir en önnur álögur. Á Akureyri er einnig byrjað að safna gögnum svo hægt sé að vinna að betra umhverfisskori á næsta ári. Í ár hefur meðaltalið á EPI á Akureyri verið 33 stig og er ætlunin að koma því hærra upp á næsta ári en til þess þarf að breyta reglum svo heimilt sé að leggja álögurnar á skipin. Kerfið hefur virkað vel þar sem það er í notkun á landinu og sem dæmi má taka að það skip sem fékk á sig mestar álögur í Reykjavík greiddi aukalega tvær milljónir og var með skorið 8. Besta skipið var hins vegar með skorið 89 og er það augljóst að sá möguleiki er fyrir hendi að skemmtiferðaskip hafi algjörlega losunarlausa heimsókn sem er einstakt í ferðaþjónustu við flutning fólks á milli landa.

Loftgæðamælingar hafa komið vel út
Í Faxaflóahöfn eru loftgæðamælar staðsettir alveg við skipin. Í sumar hefur aðeins orðið eitt útslag vegna loftmengunar og stafaði það útslag ekki frá skemmtiferðaskipum, eða öðrum skipum, heldur vegna grófs svifryks úr sandroki að austan. Vilji er til þess að deila upplýsingum úr þessum mælum með skilvirkari hætti svo fólk geti sjálft séð raunverulega samsetningu útblásturs skipanna.

Landtengingar mjakast áfram
Að lokum má nefna að landtengingar mjakast áfram. Ljóst er að skipafélögin vilja þetta öll en það er flókið og dýrt að koma upp landtengingum. Staðan er einfaldlega sú að eins og er þá eru alltof fáar hafnir sem bjóða upp á landtengingu á meðan fjöldi skipa getur tekið við tengingu. Vandinn er að hluta bundinn við að um mismunandi kerfi er að ræða, en Faxaflóahafnir í samstarfi við skipafélög hafa unnið markvisst að því að leysa þær tæknilegu áskoranir þar sem það er á þriggja ára áætlun að landtengja öll skemmtiferðaskip í Reykjavík. Þann 8. ágúst síðastliðinn var prófað að tengja skip frá Hurtigruten í Faxaflóahöfn og allt gekk upp hjá höfninni en skipið gat hins vegar því miður ekki slökkt á vélunum. Prófað var aftur þann 18. ágúst og gekk sú prófun vel og er skammt að bíða þess að landtenging verði komin á í Reykjavík og einnig í smærri skemmtiferðaskipum. Nú þegar er landtenging til staðar í Hafnarfirði.

[1] https://www.visir.is/k/c210d81b-7d80-486b-b1f3-b6929b2a17fa-1691603096719?fbclid=IwAR1FtsA8ocRmIU-ruLCfuEL9vjcTG-_F_yK6ATW7y6jGwAb8kOJvkpbIbq8

[2] https://www.cruisehive.com/clia-clarifies-no-amsterdam-cruise-ship-ban/107414