Ýmiss fróðleikur um skemmtiferðaskip

Starfsemi skemmtiferðaskipa er mörgum dulin heimur og hafa samtökin Cruise Iceland tekið saman ýmsan fróðleik um skemmtiferðaskip, komur þeirra til Íslands og reglugerðir.

Samkvæmt ferðamálaskýrslu Íslandsbanka árið 2017 var áætlað að ferðamenn til landsins myndu verða 2,3 milljónir. Af þessum heildarfjölda var í kringum 130.000 sem komu með skemmtiferðaskipum. Miðað við þær upplýsingar þá voru 6 % ferðamanna að koma með skemmtiferðaskipum á meðan 94% voru að koma með flugvélum og norrænu.

 

Innviðir

Það er margt sem þarf að huga þegar viðkemur skemmtiferðaskipum. Skemmtiferðaskipin hafa nú í nokkur ár kallað eftir skýrum tilmælum frá Íslandi, hvað má gera og hvað ekki. Móta þarf skýrar reglur og skilgreina ábyrgð. Stjórnvöld, sveitarfélög og aðrir hagsmunaaðilar þurfa að eiga farsælt samstarf til að útkoma verði sem hagstæðust. En hvað þarf að gera til að svo verði, hér að neðan eru nokkur dæmi:

 • Smærri bæjarfélög og hagsmunaaðilar á þeim svæðum sem eru undir hvað mestu álagi, þurfa að skoða hversu mikið hvert svæði þolir af farþegum sem koma með flugi og með skemmtiferðaskipum.
 • Umhverfisstofnun þarf að útbúa skriflegar leiðbeiningar í anda Association of Arctic Expedition Cruise Operators (AECO, https://www.aeco.no/guidelines/ ). Þessar leiðbeiningar eru þekktar á norðlægum slóðum (Grænlandi, Svalbarða Rússlandi o.s.frv.) og er tekið á hinum ýmsu málum hvað má gera og hvað ekki á hverjum stað. Umhverfislegmálefni, þ.e. umgengni um náttúru og dýralíf er haft að leiðarljósi í öllum þeim málum sem sett eru fram í þessum leiðbeiningum.
 • Viðbragðsáætlanir þurfa að vera til staðar fyrir hafnir um land allt.
 • Tryggja þarf Landhelgisgæslunnni fjármagn til að geta sinnt viðeigandi öryggismálum vegna siglinga í Norðurhöfum.

Það má segja að næstu árin muni marka framtíð landsins varðandi skemmtiferðaskip, þ.e. hvernig við tökum á málunum og vinnum með þau. Orðspor okkar lands er mikilvægt og því má ekki mikið útaf bregða svo það geti valdið skaða. Því er mikilvægt að allir aðilar, þ.e. stjórnvöld, bæjarfélög, hagmunaaðilar komi að sama borðinu og móti stefnu til lengri tíma litið.

Fyrstu skipakomur og fjöldi hafna

Vissir þú að…

 • Siglingar með skemmtiferðaskipum voru fyrst auglýstar árið 1844. Það var breska skipafélagið P&O sem bauð upp á ævintýraferð frá Southampton til Gíbraltar, Möltu og Grikklands.
 • Alls taka 22 hafnir hringinn í kringum landið á móti skemmtiferðaskipum. Langstærstar eru Sundahöfn, Akureyri og Ísafjarðarhöfn.
 • Til að dreifa álagi um landið er reynt að markaðssetja Ísland sem viðkomustað fyrir smærri skip. Þau komast í fleiri hafnir og fleiri njóta góðs af komu þeirra.
 • Margir farþegar skemmtiferðaskipa heillast af landi og þjóð og koma hingað aftur til lengri dvalar.
Hverjir fá tekjur af komu skemmtiferðaskipa?

Vissir þú að…

 • Skemmtiferðaskip skila Íslendingum mikilvægum gjaldeyristekjum, um sjö milljörðum kr. á ári, og skapa á þriðja hundrað heilsársstörf.
 • Ríkið fær skatttekjur í formi vitagjalda og tollafgreiðslugjalda og hafnir tekjur af hafna- og þjónustugjöldum. Umboðsmenn þjónusta skipin, annast samskipti við hafnir, opinbera aðila og birgja
 • Ferðaþjónustuaðilar skipuleggja ferðir og rútufyrirtæki og leiðsögumenn koma ferðamönnum á leiðarenda. Birgjar sjá um aðföng skipanna og svo má nefna þjónustu skemmtikrafta, viðgerðarþjónustu, sorphirðu og margt fleira.
Hvað eyða farþegar miklu í landi?

Árið 2014 var gerð könnun á vegum GP Wild og kom þá í ljós að:

 • Meðaleyðsla farþega vegna 8 klst. stopps var 79 evrur
 • 85% farþegana var að koma í fyrsta sinn til Íslands
 • 60-70 % farþegana fara í skipulagðar ferðir
 • Áhafnarmeðlimir eyða að meðaltali 11 evrum í hverju stoppi

 Ný GP Wild könnun verður framkvæmd nú í sumar (2018) og munu niðurstöður liggja fyrir með haustinu

Eldsneyti skipa

Vissir þú að…

 • Brennisteinstvíoxíð (SO2) er algengt mengunarefni sem losnar út í umhverfið við brennslu á jarðefnaeldsneyti. Losun SO2 er langmest frá flugvélum, þar næst frá bílum en langminnst frá skipum.
 • Í mengunarlögsögu Íslands gildir almennt sú regla að skip mega brenna svartolíu með brennisteinsinnihaldi að hámarki 3,5%.
 • Um farþega- og skemmtiferðaskip gilda aðrar reglur. Þar má hámarks brennisteinsinnihald ekki fara yfir 1,5% til 1. janúar 2020 en síðan gilda enn lægri viðmið.

Aðrar staðreyndir:

Sú meginregla sem í gildi er kemur fram í reglugerð nr. 124 frá 2015 um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti. Reglugerðin gildir um brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, skipadísilolíu, skipagasolíu, svartolíu og gasolíu hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands. Það ákvæði sem kveður á um heimild til notkunar er í 4. 5. og 6. grein reglugerðarinnar og helstu ákvæðin þessi og gildir um öll skip:

Í mengunarlögsögu Íslands gildir almennt sú regla að skip mega brenna svartolíu með brennisteinsinnihaldi að hámarki 3,5%.

 • Brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, þ.m.t. svartolíu sem er notuð eða er ætluð til nota í skipum eða bátum, sem notað er hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands skal vera að hámarki 3,5% (m/m), að undanskildu eldsneyti til skipa sem nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun í lokuðu kerfi.
 • Brennisteinsinnihald skipadísilolíu skal vera að hámarki 1,5% (m/m).
 • Brennisteinsinnihald skipagasolíu skal vera að hámarki 0,1% (m/m).
 • Um farþega- eða skemmtiferðaskip, sem taka 12 farþega eða fleiri, gilda þó aðrar reglur. þar má hámarks brennisteinsinnihald ekki fara yfir 1,5% til 1. janúar 2020, en síðan gilda lægri viðmið.
 • Þegar skemmtiferðaskip leggjast að bryggju í íslenskri höfn er slökkt á aðalvélum skipsins. Ljósavélarnar eru hins vegar áfram í gangi enda orkuþörfin mikil.
 • Öllum skipum við bryggju er skylt að nýta sér rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis ef það er mögulegt.
 • Það gildir auðvitað líka um stór skip eins og skemmtiferðaskip en dreifikerfi raforku eru því miður vanbúin til að veita slíka þjónustu enda kalla slík skip á háspennutengingar
 • Íslenskar hafnir eiga að óbreyttu enga möguleika á að fjármagna landtengingar stórra skipa án verulegrar aðstoðar ríkisins, enda um milljarða fjárfestingar að ræða.
 • Þann 22. febrúar s.l., tók í gildi fullgilding Íslands á viðauka VI í MARPOL-samningnum um loftmengun frá skipum.
 • Frá og með 1. janúar 2020 má brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti sem notað er hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands ekki vera meira 0,5% (m/m). Þetta mun einnig gilda um öll heimshöfin fyrir utan þau svæði sem í dag eru skilgreind mx. 0,1 % (ECA svæði).

Framangreint ber með sér að frá árinu 2020 verður tæplega mögulegt að nota svartolíu nema skip séu útbúin hreinsibúnaði og sá búnaður nægi til að brennisteinsinnihald fari ekki yfir 0,5%.

Tenging í landi (rafmagn)

Vissir þú að…

 • Öllum skipum við bryggju er skylt að nýta sér rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis, ef það er mögulegt.
 • Þetta gildir auðvitað líka um stór skip eins og skemmtiferðaskip en dreifikerfi raforku eru því miður vanbúin til að veita slíka þjónustu.
 • Íslenskar hafnir eiga að óbreyttu enga möguleika á að fjármagna landtengingar stórra skipa án verulegrar aðstoðar ríkisins, enda um milljarða fjárfestingar að ræða.
Mengunarvarnir

Vissir þú að…

 • Ný lofthreinsikerfi skemmtiferðaskipa hafa þá eiginleika að minnka losun brennisteinstvíoxíðs (SO2) um 98%.
 • Mörg skemmtiferðaskip eru með sérstakar síur til varnar því að sót berist út í andrúmsloftið.
 • Æ fleiri skemmtiferðaskip eru líka búin sólarrafhlöðum til þess að draga úr þörfinni fyrir mengandi orkuframleiðslu.
 • Brennisteinstvíoxið (SO2) er algengt mengunarefni sem losnar út í umhverfið við brennslu á jarðefnaeldsneyti. Losun SO2 er langmest frá flugvélum, þar næst frá bílum en lang minnst frá skipum.
 • Útgerðir skemmtiferðaskipa leggja metnað sinn í að skipin losi hvergi í heiminum ómeðhöndlað skólp.
 • Skemmtiferðaskip flokka allan sinn úrgang sem komið er til móttökuaðila í höfn
Nýsköpun
 • Útgerðir skemmtiferðaskipa leggja áherslu á að endurnýja flota sinn samkvæmt bestu fáanlegri tækni.
 • Þannig verða á næstu átta árum smíðuð yfir 90 ný skip. Af þeim verða 18 knúin með náttúrugasi (LNG) og 22 þessara skipa verða sérsmíðuð fyrir heimskautasvæðin.
 • Útgerðirnar verja á annað hundrað milljörðum króna til að gera skipin umhverfisvænni, því það er orðin krafa hjá flestu löndum.
 • Spennandi möguleikar eru á að þróa nýja þjónustu og vörur fyrir skemmtiferðaskipin og gesti þeirra, auka fjölbreytni í framboði afþreyingar, skoðunarferða, hugbúnaðar og marvíslegra þjónustuþátta.
 • Þannig getur íslensk hugmyndaauðgi og nýsköpun stuðlað að enn frekari verðmæta sköpun og virðisauka þessarar ört vaxandi þjónustugreinar.
 • Ert þú með góða hugmynd?