Þær fréttir voru fluttar á vef Cruise Europe fyrir skömmu að Faxaflóahafnir hafi verið fyrstar utan Noregs til að taka upp Environmental Port Index (EPI) kerfið en skrefið leiddi til þess að fleiri íslenskar hafnir, auk hafna við Norður Atlantshafið bættust við. Í dag er heildar fjöldi hafna í EPI kerfinu 29.
Af þessu tilefni hafði Cruise Europe eftir Sigurði Jökli Ólafssyni, markaðsstjóra Faxaflóahafna, að þau væru lykil TEN-T höfn (Trans-European Transport Network sem er stefna ESB um samhæfða flutninga innan evrópska efnahagssvæðisins). Sem TEN-T höfn hafa Faxaflóahafnir þá skuldbindingu að koma á landtengingum frá og með 2030 en þá mun EPI kerfið spila lykilhlutverk í markmiðum Faxaflóahafna.
„Það reyndist mjög mikilvægt að innleiða sama kerfi og Noregur notar,“ segir Sigurður í viðtalinu. „Með EPI meðaltal upp á 41,1% á móti 45,7% í Noregi fyrir árið 2023 erum við nánast á sömu síðu. En til viðbótar þá fáum við vottuð gögn um umhverfisáhrif sem mun auðvelda okkur að sýna almenningi að við tökum umhverfismál mjög alvarlega.“
Sigurður segir enn fremur að sem fulltrúi EPI á Íslandi hafi það verið mikilvægt Faxaflóahöfnum að koma öðrum höfnum að borðinu. Akureyri og Seyðisfjörður innleiddu þannig einnig EPI kerfið á síðasta ári og Ísafjörður mun taka upp kerfið í nú í janúar 2024.
Þá kemur einnig fram að á árinu 2023 hafi verið fleiri en 2500 hafnarkomur og því hafi miklu af gögnum verið safnað. Hátt í 200 skemmtiferðaskip eru núna skráð í kerfið og hefur meðaleinkunn þeirra farið úr 40 í 45. 100 er besta einkunnin.
Á síðasta ári sást einnig aukning á meðal skemmtiferðaskipa í EPI skráningum um 23%. Á þeim gögnum sem fengust er ljóst að um umtalsverða aukningu er að ræða í hreinna eldsneyti. 2022 var t.d. 5% eldsneytis fljótandi jarðgas (LNG) en ári síðar var talan komin í 20%.
Vegna hreinsibúnaðar í skipunum hefur einnig tekist að draga úr NOx losun í hverri dvöl skips um 24% og SOx losun dróst saman um 47% miðað við áætlaðan losun.
Frá fyrsta árinu með EPI, 2019, hefur meðaltal EPI einkunnarinnar hækkað um 15% úr 30% í 45%.
„Meðaltal EPI heldur áfram að fara upp. Það sýnir okkur að útgerðir skipanna leggja á sig aukna vinnu til að bæta EPI einkunnina sína,“ segir Elisabeth Draegeboe í sömu frétt en hún er ráðgjafi og viðskiptaþróunarstjóri hjá DNV.
Vænst er frekari þróunar hjá EPI með nýrri og uppfærðri vefsíðu 2024. „Þetta er einstakt tækifæri fyrir hafnir í kerfinu okkar að sýna árangur sinn í sjálfbærniþróun. EPI vefurinn mun verða miðstöð upplýsinga m.a. varðandi hverja dvöl skips svo sem lengd hennar og losun. Við viljum þróa EPI til að komast í þá stöðu að verða fyrsta val í umhverfisbókhaldi hafna,“ segir Even Husby forstjóri EPI.