Cruise Iceland er enn og aftur mætt á SeaTrade Cruise Global sýninguna í Miami sem er einn stærsti viðburðurinn í atvinnugreininni en þar mæta allir sem telja sig hafa eitthvað fram að færa.

Frá Íslandi koma fulltrúar Faxaflóahafna, Hafnarsamlagi Norðurlands, Iceland Travel, Atlantik, Gáru, Skeljungi, SDK Group og Markaðsmiðjunnar auk þess sem hafnir á Ísafirði og Sauðárkróki eru kynntar til leiks. Íslandsstofa sér um skipulag þátttökunnar og uppsetningu sýningarbáss.
Samhliða sýningunni verður haldin stór ráðstefna þar sem málefni greinarinnar verða rædd.

Fulltrúar Cruise Iceland hafa átt nokkra fundi með forsvarsmönnum CLIA sem eru alþjóðasamtök skipafélaga. Lýstu CLIA menn yfir miklum áhyggjum af auknum gjaldtökum eins og gistináttaskatti, þá helst hvernig staðið er að framkvæmdinni. Ekkert tillit er tekið til þeirrar staðreyndar að ferðir skipanna eru skipulagðar og seldar með margra ára fyrirvara og því er fyrirvaralaus álagning gjalda mjög skaðleg því trausti sem vanalega er borið til Íslands sem ferðaþjónustulands. Samtökin eru ekki ósátt við að greiða eðlilega skatta og gjöld í þágu aukinnar sjálfbærni í ferðaþjónustu á áfangastöðum skemmtiferðaskipa. Hins vegar þá á það við þessa atvinnustarfsemi eins og aðrar að fyrirsjáanleiki er mikilvægur og því eru fyrirvaralitlar auknar gjaldtökur sem ekki er unnt að velta yfir á farþega með svo stuttum fyrirvara, rekstrarlega slæmar í geira sem nú þegar er rekinn með lágri framlegð. Skemmtiferðaskip eru skilgreind sem farartæki og því gilda aðrar reglur um þau heldur en hótel í landi og eðlilegra er að bera skemmtiferðaskip saman við regluverk í flugi.

Heildarfjöldi skemmtiferðaskipafarþega er um 14% af heildarfjölda ferðamanna á Íslandi, því skiptir miklu máli að jafnræðis sé gætt í aðgerðum til að stýra ferðaþjónustunni í heild.

Ráðstefnur eins og SeaTrade Global snúast eins og aðrar B2B ráðstefnur um samninga á milli fyrirtækja um vöru og þjónustu. Fyrirtækin frá Íslandi eru m.a. í þeim erindum á ráðstefnunni með virðisaukningu í huga til hagsbóta fyrir sín fyrirtæki og hagkerfið í heild.