Fróðleikur

Hverjir hafa tekjur af farþegaskipum?

    • Ríkið: Fær skatttekjur í formi vitagjalda og tollafgreiðslugjalda.
    • Hafnir: Tekjur af hafna- og þjónustugjöldum.
    • Þjónustuaðilar: Eru þeir aðilar sem þjónusta skipin beint.
    • Skipaumboðsmenn: Sjá um að þjónusta skipið, annast samskipti við hafnir, opinbera aðila og innlenda birgja.
    • Ferðaþjónustuaðilar: Skipuleggja ferðir fyrir skipafélögin og þjónusta ferðamenn sem koma frá skipunum.
    • Rútufyrirtæki og leiðsögumenn: Koma ferðamönnum á leiðarenda undir leiðsögn.
    • Birgjar: Sjá um aðföng um borð í skipin.
    • Aðrir þjónustuaðilar: Viðgerðir á ýmiskonar búnaði,skemmtikraftar, sorphirða o.þ.h.

Árið 2023 var framkvæmd rannsókn á vegum Reykjavík Economics fyrir hönd Faxaflóahafna og annarra hagaðila, en í framhaldi var skýrsla gefin út. Niðurstöður hennar sýndu að efnahagsleg umsvif skemmtiferðaskipageirans á Íslandi voru metin á 37,2 milljarða árið 2023.
Í skýrslunni kemur fram að farþegar skemmtiferðaskipa eyði umtalsvert meira en aðrir ferðamenn og séu með heildarútgjöld upp á a.m.k. 22-30 milljarða króna. Geirinn hefur tífaldað farþegafjölda á tveimur áratugum og er góður sveiflujafnari fyrir ferðaþjónustuna í heild þar sem válegar fréttir af eldgosum virðast t.d. ekki hafa áhrif fjölda ferðamanna með skemmtiferðaskipum.
Sjá nánar niðurstöðu könnunar varðandi efnahagsleg áhrif farþegaskipa á Ísland hér.

Eldsneyti
Þann 1. janúar 2020 tók í gildi reglugerð um að brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti sem notað er hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands má ekki vera meira 0,1% (m/m). Framangreint ber með sér að nú er tæplega mögulegt að nota svartolíu nema skip séu útbúin hreinsibúnaði og sá búnaður nægi til að brennisteinsinnihald fari ekki yfir 0,1%.

    • Umhverfisstofnun sér um allt eftirlit með að þessum reglum sé framfylgt við Ísland.
    • Þegar farþegaskip leggjast að bryggju í íslenskri höfn er slökkt á aðalvélum skipsins. Ljósavélarnar eru hins vegar áfram í gangi enda orkuþörfin mikil.
    • Öllum skipum við bryggju er skylt að nýta sér rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis ef það er mögulegt.
    • Það gildir auðvitað líka um stór skip eins og farþegaskip en dreifikerfi raforku eru því miður vanbúin til að veita slíka þjónustu enda kalla slík skip á háspennutengingar.

Faxaflóahafnir eru með fyrstu höfnum heims sem hafa þann möguleika fyrir hendi að geta landtengt skemmtiferðaskip með rafmagni. Skemmtiferðaskip hafa verið landtengd á Miðbakka sem og Faxagarða sem leiðir til þess að það dregur umtalsvert úr notkun eldsneytis skipa á meðan þau eru í höfn.

Lofthreinsikerfi og úrgangur

    • Mörg farþegaskip eru með sérstakar síur til varnar því að sót berst út í andrúmsloftið.
    • Ný lofthreinsikerfi farþegaskipa hafa þá eiginleika að minnka losun brennisteinstvíoxíðs (So2) um 98 %.
    • Brennisteinstvíoxið (SO2) er algengt mengunarefni sem losnar út í umhverfið við brennslu á jarðefnaeldsneyti. Losun SO2 er langmest frá flugvélum, þar næst frá bílum en lang minnst frá skipum.
    • Sífellt fleiri farþegaskip eru útbúin sólarrafhlöðum til þess að draga úr þörfinni fyrir mengandi orkuframleiðslu.
    • Útgerðir farþegaskipa leggja metnað sinn í að skipin losi hvergi í heiminum ómeðhöndlað skólp.
    • Farþegaskip flokka allan sinn úrgang sem komið er til móttökuaðila í höfn.

Umhverfisaðgerðir af hálfu skemmtiferðaskipa eru fjölmargar og markvissar og stefna skipaútgerðir að kolefnishlutleysi með notkun á lífeldsneyti, vetni, rafmagni og seglum. Í íslensku samhengi hafa Faxaflóahafnir innleitt Environmental Port Index kerfi (EPI) og stefna fleiri hafnir á innleiðingu. Auk þess hefur Akureyrarhöfn þegar hafið gagnasöfnun á grunni EPI í þeim tilgangi að geta kortlagt árangur af innleiðingu kerfisins þegar gjaldtaka á grunni EPI verður heimiluð.
Í vaxandi mæli er boðið upp á landtengingu í formi rafmagns fyrir minni skemmtiferðaskip, en áætlanir eru um að bjóða upp á það sama fyrir stærri skip árið 2027. Kerfið gerir höfnum kleift að skilgreina umhverfisspor skemmtiferðaskipa meðan á viðkomu þeirra stendur og með innleiðingu þess verður komið á fjárhagslegu hvatakerfi til umhverfisvænni og sjálfbærari rekstrar skipanna. Framtíðaráætlanir fela í sér frekari umhverfisaðgerðir í skemmtiferðaskipageiranum.
Niðurstöður loftgæðamælinga fyrir árið 2023 sýna að styrkur mengunarefna eins og brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnissambanda og svifryks var vel undir viðmiðunarmörkum við Skarfabakka, samkvæmt reglugerð 920/2016. Þetta var einnig staðan árið 2022. Niðurstöðurnar má finna hér, en verkfræðistofan Vatnaskil sá um úrvinnslu og greiningu gagna. Mælingar voru framkvæmdar með loftgæðastöð í Laugarnesi, rekinni af Vista, ásamt annarri stöð við Leikskólann Lund. Mengunina sem þó fannst má að stórum hluta rekja til umferðar og eldvirkni á Reykjanesskaga, en ekki sérstaklega til skemmtiferðaskipa.
Á loftgæðastöðvunum er stuðst við mælingar á vindstefnu, sem og hraða, til að rekja uppruna þeirra efna sem mælast. Þá var einnig stuðst við gögn um viðveru skipa við Skarfabakka. Í öllum tilvikum er styrkur köfnunarefnissambanda vel undir mörkum og sömuleiðis styrkur annarra efna.

Nýsköpun

    • Útgerðir farþegaskipa leggja áherslu á að endurnýja flota sinn samkvæmt bestu fáanlegri tækni.
    • Sú nýjung er komin að mörg hver farþegaskip eru knúin náttúrulegu gasi (LNG).
    • Útgerðirnar verja á annað hundrað milljörðum króna til að gera skipin umhverfisvænni, því það er orðin krafa hjá flestu löndum.
    • Spennandi möguleikar eru á að þróa nýja þjónustu og vörur fyrir farþegaskipin og gesti þeirra, auka fjölbreytni í framboði afþreyingar, skoðunarferða, hugbúnaðar og margvíslegra þjónustuþátta.
    • Þannig getur íslensk hugmyndaauðgi og nýsköpun stuðlað að enn frekari verðmætasköpun og virðisauka þessarar ört vaxandi þjónustugreinar.

Farþegatakmarkanir (CAP)
Hafnir nokkurra sveitafélaga hafa sett fram takmarkanir (CAP) á fjölda farþega til að stuðla að því að innviðir ráði við ferðamannastrauminn. Grundafjarðarhöfn hefur takmarkað fjölda gesta við 4000 farþega, Seyðisfjarðarhöfn 3500 farþega, Borgarfjörður Eystri 500 farþega og Djúpivogur við 2500 farþega. Þá hefur Ísafjörður gert áætlun um takmarkanir fyrir árin 2025 og 2026, en árið 2024 er þegar bókað. Ákjósanlegur fjöldi fyrir Ísafjarðarhöfn er 5000 farþegar, en hámark 7000 farþegar. Akureyri vinnur sem stendur að stefnumörkun í þessum efnum.

Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir hafa hafið vinnu við mótun stefnu um þolmörk og móttöku skemmtiferðaskipa í Reykjavík, í samvinnu við Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Markmið verkefnisins er að skapa sameiginlega sýn hagaðila til að skilgreina aðgerðir við álagsstýringu sem hafa áhrif á samfélag, náttúru, efnahag og nærumhverfi. Verkefnið styður aðgerð C.7 í tillögu stjórnvalda um ferðamálastefnu og aðgerðaráætlun til 2030, sem snýr að samstarfi um móttöku skemmtiferðaskipa og nýtingu innviða til að skapa verðmæti í sátt við samfélag og náttúru. Skipaður hefur verið stýrihópur með fulltrúum helstu hagaðila og er þetta fyrsti verkhluti af þremur þar sem afurðin verður stefnuskjal hagaðila með sameiginlegri sýn um þolmörk og móttöku farþega skemmtiferðaskipa í Reykjavík. Aðrir verkhlutar munu fylgja, þar á meðal mótun aðgerðaáætlunar, innleiðing og framkvæmd. Cruise Iceland á sæti í stýrihópnum.

Leiðbeiningar fyrir ferðamenn

    • Þann 29. október 2018 varð Ísland hluti af starfsvæði AECO.
    • Association of Arctic Expedition Cruise Operators (AECO) eru alþjóðleg samtök rekstraraðila leiðangursfarþegaskipa og samstarfsaðila þeirra á norðurslóðum, sem helga sig umhverfisvænum, öruggum og tillitsömum rekstri skemmtiskipa. AECO hefur um 70 alþjóðlega meðlimi – þar á meðal eru 40 skiprekendur, eigendur og stjórnendur, og 50 leiðangursfarþegaskip – og er því í forsvari fyrir meirihluta þeirra sem stunda slíkan rekstur á norðurslóðum. Meðlimir AECO sigldu með alls 26.000 farþega til Svalbarða, Grænlands, Íslands, Kanada og Frans Jósefslands árið 2018. Cruise Iceland og North Atlantic Agency á Íslandi eru meðlimir í AECO.
    • Starfssvæði samtakanna nær yfir Svalbarða, Jan Mayen, Grænland, norðurhluta Kanada og norðurskautsþjóðgarðinn í Rússlandi, sem og Ísland frá árinu 2019.
    • Samtökin hafa sett saman fjölda reglna sem meðlimum þeirra er skylt að fylgja. Þar á meðal eru reglur er varða starfsemi, dýralíf, gesti, ákveðna staði og annað.
    • Árið 2019 voru gefnar út fyrstu AECO leiðbeiningarnar fyrir Seyðisfjörð. Þær leiðbeiningar hafa verið unnar í samvinnu við hagsmunaaðila á svæðinu.
    • Umhverfisstofnun er þar að auki búin að gefa út leiðbeiningar fyrir Friðlandið á Hornströndum. Hér má sjá tilmæli til ferðaþjónustuaðila.

Hvað eru farþegaskipaútgerðirnar að gera í umhverfismálum? Sjá nánar hér.